Á mótum danskrar og íslenskrar menningar: Danir á Íslandi 1900–1970

Markmiðið með verkefninu er að beina sjónum að vanræktum hópi í danskri og íslenskri sögu; hópi Dana sem bjó á Íslandi á tímabilinu 1900-1970, á tíma þegar stjórnmálalegt forræði Dana yfir Íslandi leið smám saman undir lok. Rannsóknarverkefnið sameinar krafta danskra og íslenskra tungumálasérfræðinga og sagnfræðinga sem munu takast á við spurningar varðandi tungutak Dananna, sjálfsmynd, menningarleg sérkenni, samfélagslega og efnahagslega stöðu í íslensku samfélagi ásamt tengslum þeirra við Danmörku.

Slíkum spurningum verður svarað með heimildarannsókn bæði á Íslandi og í Danmörku þar sem varðveittar eru skriflegar heimildir, t.d. bréfasöfn, endurminningar, skjalasöfn fyrirtækja, félagasamtaka og sendiráða. Mikilvægustu heimildirnar verða þó viðtöl við eftirlifandi meðlimi danska minnihlutahópsins sem muna tímana fyrir sjálfstæði Íslands árið 1944. Með viðtölunum verður hægt að afla upplýsinga um bakgrunn þeirra og reynslu sem innflytjendur á mótum danskrar og íslenskrar menningar á Íslandi. Viðtölin teljast sérstaklega mikilvæg því verði þeim ekki aflað í tæka tíð munu mikilvægar upplýsingar glatast þegar hugsanlegir viðmælendur falla frá. Því verður lögð áhersla á að taka fyrst viðtöl við elstu meðlimina auk þess sem gætt verður að landfræðilegri og félagslegri dreifingu viðmælenda. Rannsóknarverkefnið mun því einnig skapa frumheimildir í formi hljóð- og myndefnis sem mun nýtast í öðrum rannsóknum.

Fræðaheimurinn sýnir sívaxandi áhuga á fjölþjóðlegum samskiptum, eftirnýlendufræðum, hnattvæðingu, fólksflutningum og minnihlutahópum. Rannsóknir á dönskum minnihlutahópum hafa fyrst og fremst beinst að danska minnihlutahópnum í Slésvík og dönskum innflytjendum í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu og Kongó. Hvorki íslenskir né danskir fræðimenn hafa gefið gaum að danska minnihlutahópnum á Íslandi. Það helgast af því að rannsóknir hafa iðulega lagt áherslu á stjórnmálaleg og efnahagsleg tengsl frekar en persónuleg tengsl. Það skekkir myndina af sambandi Dana og Íslendinga því hið persónulega svið og jafnvel hið daglega líf var mikilvægur vettvangur samskipta og menningarmiðlunar og þar hafði ríkisvaldið minna að segja. Hið dansk-íslenska dæmi getur þannig aukið skilning okkar á einstaklingum og þýðingu persónulegra tengsla í ljósi alþjóðlegra tengslaneta og áhrifa í póst-kolóníalískum heimi.

Aukinheldur höfðu Danirnir meiri áhrif á íslenskt samfélag en mörg önnur lönd sín, jafnvel þótt hópurinn hafi skorið sig frá meirihlutanum á mörgum sviðum. Dönsk tunga hafði mikilvægu hlutverki að gegna á Íslandi, m.a. sem embættismannamál og í skólum sem fyrsta erlenda tungumálið. Auk þess voru margar kennslubækur í skólum á dönsku og ófáir Íslendingar komust til mennta í Danmörku. Það var venja hjá ákveðnum samfélagshópum á Íslandi að lesa á dönsku fram undir miðja 20. öld. Því lærðu margir Íslendingar dönsku og ýmislegt bendir til þess að margir Íslendingar hafi kosið að tala dönsku við Dani á Íslandi. Danirnir töluðu aftur á móti dansk-íslenskt afbrigði af íslensku. Afbrigði þetta er á undanhaldi því margt bendir til þess að þeir Danir sem hafa sest að á Íslandi á síðustu áratugum læri íslensku á annan hátt en þeir sem eldri eru. Því telst það eitt af meginhlutverkum rannsóknarverkefnisins að hljóðrita og rannsaka þetta afbrigði áður en það deyr út. Það gæti varpað ljósi á það ferli sem liggur að baki þróun málsins, hvernig Danirnir urðu fyrir áhrifum frá íslenskri menningu og hvaða þýðingu þeir höfðu fyrir íslenskt samfélag.

Rannsóknin nær yfir tímabilið 1900-1970. 20. öldin einkenndist af stigbundnum aðskilnaði Danmerkur og Íslands, fyrst með heimastjórninni 1904, síðan með fullveldinu 1918 og loks sjálfstæði 1944. Það þýddi að samfélagsstaða danska minnihlutans var síbreytileg sem og forsendur þeirra fyrir að viðhalda sérstöku tungutaki, sjálfsmynd og menningu. Í upphafi 20. aldar voru Danirnir efnahagsleg og menningarleg elíta og þjónuðu að miklu leyti sem fulltrúar „móðurlandsins“. Þegar íslenskri þjóðernismeðvitund óx ásmegin urðu Danirnir einnig fulltrúar kúgandi herraþjóðar. Það kom til frekari átaka milli þjóðanna á 20. öld, m.a. í fánamálinu 1913 og handritamálinu á 6. og 7. áratug aldarinnar. Heimkoma handritanna varð loks til þess að bæta samskipti þjóðanna og þess vegna lýkur rannsóknartímabilinu við þau tímamót. Hins vegar má gera ráð fyrir því að það hafi verið erfitt að viðhalda danskri sjálfsmynd í samfélagi þar sem stundum ríkti mjög neikvætt viðhorf í garð Danmerkur og Dana. Það er þó óvíst að hve miklu leyti neikvætt viðhorf hafði áhrif á danska minnihlutahópinn og möguleika þeirra til að skapa og viðhalda menningarlegum sérkennum sínum. Rannsóknarverkefninu er því ætlað að varpa ljósi á hvernig einstaklingar, sem ekki endilega tóku þátt í stjórnmálum eða stjórnsýslu, upplifðu breytingar á sambandi Danmerkur og Íslands á eigin skinni.

Rannsóknarverkefninu er skipt í nokkra hluta sem fjalla um tungumál og sögu og eru unnin af þátttakendum bæði frá Íslandi og Danmörku. Rannís styður verkefnið. Íslensku þátttakendurnir eru: Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku við HÍ og forstöðukona Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hún veitir verkefninu forstöðu, ritar grein í og ritstýrir greinasafni sem verður einn helsti afrakstur verkefnisins.  Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, tekur þátt í stjórn verkefnisins og er leiðbeinandi Írisar Ellenberger. Hann ritstýrir greinasafninu og ritar grein í það. Þóra Björk Hjartardóttir rannsakar tungumál Dananna með áherslu á frávik frá íslensku. Niðurstöður verða birtar í greinasafninu. Íris Ellenberger doktorsnemi rannsakar samfélagslega og efnahagslega stöðu Dananna á Íslandi. Niðurstöður verða gefnar út í doktorsritgerð og í grein í greinasafni. Dönsku þátttakendurnir eru: Erik Skyum-Nielsen, lektor við Institut for Nordiske Studier og Sprogvidenskab við Kaupmannahafnarháskóla, sem tekur þátt í stjórn verkefnisins. Christina Folke Ax post. doc. rannsakar menningu og sjálfsmynd Dananna, innri tengsl þeirra og tengsl við Danmörku. Niðurstöður verða gefnar út sem bók og sem grein í greinasafni. Auk þeirra mun einn málfræðingur rannsaka tungutak Dananna og frávik frá danskri tungu. Niðurstöður birtast í greinasafninu.

Om projektet på dansk.